„Aldrei gefast upp á góðri hugmynd“

07.01.2018 - 19:20
Mynd með færslu
 Mynd: Skype  -  RÚV
Lykilatriði er að gefast aldrei upp á góðri hugmynd, segir Sigurður Kjartan Hilmarsson, forstjóri Siggi's Skyr. Franskur mjólkurvöruframleiðandi keypti fyrirtækið fyrir milljarða í vikunni.

Margir efuðust þegar Sigurður ákvað að hefja skyrframleiðslu í eldhúsinu sínu í New York árið 2004. Hann fór til Bandaríkjanna í framhaldsnám en sá fljótt að mataræðið þar hentaði illa. „Það var fyrst og fremst út frá því að það var rosalega mikill sykur í matvælum hérna almennt, ekki bara í sælgæti og eftirréttum og gosi heldur líka bara venjulegum mat bara eins og súpum og brauði og jógúrti...og svo á sama tíma saknaði ég rosa mikið skyrsins.“

Reksturinn gekk oft brösuglega

Eftir það fór boltinn að rúlla. Sala á skyrinu hófst á útimarkaði og í ostabúð á Manhattan, en nokkrum árum síðar hóf verslunarkeðjan Wholefoods að selja skyrið. „Þetta var rosa rómantískt fyrst þegar ég var að hjóla um búðina og dreifa skyrinu sjálfur, en svo varð þetta rosalega erfitt þegar við byrjuðum að skala þetta upp og gekk oft brösuglega, við vorum kannski aðeins á undan okkar tíma.“ segir Sigurður.

Skyr var tiltölulega óþekkt í Bandaríkjunum og það tók Bandaríkjamenn nokkur ár að komast upp á lagið. Sigurður segist þó aldrei hafa leyft sér að gefast upp og koma heim til mömmu og pabba á Háaleitisbraut. „Maður verður bara alltaf að halda áfram og ekki gefast upp sko, ef maður byrjar að hugsa þannig þá byrja hlutirnir eitthvað að fara niður.“

Fyrirtækið breytist lítið við söluna

Franski mjólkurvöruframleiðandinn Lactalis keypti nýverið fyrirtækið af Sigurði. Sigurður hefur ekki viljað gefa upp kaupverðið en fjölmiðlar hafa sagt að um tugi milljarða sé að ræða. „Áhuginn var þannig að menn gátu fengið niðurstöðu sem var ásættanleg öllum sem áttu hluta að, það er að segja ég gat fengið ágæta ávöxtun fyrir mína þolinmóðu hluthafa, og kannski ekki síður mikilvægt að þetta er fyrirtæki sem ætlar ekki að breyta hlutunum mikið, þannig allir starfsmennirnir halda áfram.“

Sigurður segir að lykillinn til að ná árangri sé að vera á staðnum. „Þú þarft í rauninni að hoppa á hvert einasta tækifæri sem býðst til að selja, jafnvel þótt að líkurnar séu litlar. Í lok dagsins þarftu bara að mæta og mæta aftur, koma á allar sýningarnar, hitta fólk aftur og aftur og þó það segir ekki já í fyrsta skipti, þá segir það kannski í annað skiptið, kannski í þriðja og svo í fjórða skiptið segir það já.“

Mynd með færslu
Milla Ósk Magnúsdóttir
Fréttastofa RÚV