Akureyrarflugvöllur í mesta áhættuflokki

30.10.2015 - 17:45
Mynd með færslu
 Mynd: Rögnvaldur Már Helgason  -  RÚV
Akureyrarflugvöllur er í einhverjum tilfellum settur í mesta áhættuflokki hjá erlendum flugfélögum. Þetta segir upplýsingafulltrúi Isavia. Hann segir yfirleitt um að ræða flugrekendur sem ekki þekki til aðstæðna á vellinum og breyti þeir gjarnan flokkun við komu á flugvöllinn.

Um er að ræða sérstaka flokkun sem er gerð af flugrekendum sjálfum. Í A-flokki þarf engan sérstakan undirbúning undir flug. Í B-flokki þarf flugmaður að kynna sér aðstæður á ákvörðunarstað lauslega áður en farið er af stað. Þegar talar er um C-flokkun er litið til vandkvæða sem geta skapast í aðflugi, við lendingu og flugtak. Flokkunin er gerð svo hægt sé að meta áhættuna sem fylgir áðurgreindum aðgerðum. Nafn Akureyrarflugvallar kemur fyrir á listum yfir erfiðustu flugvelli Evrópu, ásamt ríflega 20 öðrum flugvöllum. Á dögunum ákvað flugmaður hjá erlendu flugfélagi sem átti að lenda á Akureyri að lenda í Keflavík og gaf hann upp að ástæðan væri vegna veðurs. Upplýsingafulltrúi Isavia sagði í samtali við héraðsfréttablaðið Vikudag að ekkert hefði verið að veðri þennan dag.

Fréttastofa hefur heimildir fyrir því að ef flugvöllur er settur í C-flokk megi flugmenn einfaldlega ekki lenda þar nema hafa hlotið sérstaka þjálfun í flughermi eða komið á flugvöllinn áður til þess að kynna sér aðstæður. Guðni Sigurðsson upplýsingafulltrúi Isavia segir að dæmi séu um að flugfélög sem þekki ekki aðstæður á Akureyrarflugvelli setji völlinn sjálfkrafa í C-flokk.

„Mér skilst að það sé í einhverjum tilvikum. En það er þá hjá flugfélögum sem að okkur vitandi hafa ekki komið á staðinn og skoðað aðstæður.“

Eruð þið með upplýsingar um það hvernig ykkar flugvellir eru flokkaðir hjá öðrum flugfélögum? „Við söfnum því ekki sérstakelga en við vitum það náttúrlega að hjá þeim sem fljúga reglulega hvernig því er háttað. Okkar reynsla er sú að þegar menn koma og kynna sér málið þá færist völlurinn upp um flokk.“