Akstur bannaður á Þröskuldum og Öxnadalsheiði

14.01.2018 - 10:25
Mynd með færslu
 Mynd: Sunna Valgerðardóttir  -  RÚV
Vegagerðin hefur lokað fyrir umferð um Þröskulda og Öxnadalsheiði vegna vonskuveðurs sem nú gengur yfir norðanvert landið. Lögreglan á Norðurlandi eystra biður fólk um að huga vel að veðri og færð ef það þarf nauðsynlega að ferðast á milli staða.

Á vef Vegagerðarinnar kemur fram að víða á Norðurlandi sé stormur, ofankoma og skafrenningur og að hviður hafi sums staðar farið í 45 metra á sekúndu. Veðrið eigi að lagast lítið eitt yfir miðjan daginn en versni síðan aftur þegar lægðarmiðjan komi til baka. 

Davíð Már Bjarnason, upplýsingafulltrúi slysavarnarfélagsins Landsbjargar, segir í samtali við fréttastofu að björgunarsveitir á Norðurlandi hafi verið kallaðar út rétt fyrir klukkan níu í Hrísey og á Akureyri og Sauðárkróki vegna fokverkefna. „Þetta voru nokkur verkefni, hlutir að fjúka og annað í þeim dúr.“

Mynd með færslu
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV