Akranes: Ekki unað við ástand Vesturlandsvegar

10.01.2018 - 12:54
Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson  -  RÚV
Bæjarstjórn Akraness skorar á samgönguyfirvöld að tryggja fjármuni til að tvöfalda Vesturlandsveg á Kjalarnesi. Í ályktun bæjarstjórnar segir að við núverandi ástand verði ekki unað.

 

Bæjarstjórn telur með öllu óviðunandi að árið 2018 sé enn verið að keyra einbreiða og óupplýsta þjóðleið út úr Reykjavík. Það sé ekki í samræmi við áherslur stjórnvalda um forgangsröðun í þágu umferðaröryggis.

Í ályktun bæjarstjórnar er bent á að Vegamálastjóri telur vegkaflan hættulegan og telur brýnt að aðskilja akstursstefnur. Í Samgönguáætlun fyrir árin 2015-2018 sé gert ráð fyrir 700 milljónum til endurbóta á Vesturlandsvegi en nú sé einungis gert ráð fyrir 200 milljónum til endurbóta með uppbyggingu hringtorgs við Esjumela. Það verði það áttunda í röð hringtorga frá Keldnaholti að Esjumelum. Endurbætur á Vesturlandsvegi séu enn aftar í röðinni en áður var.

Bæjaryfirvöld á Akranesi hafa margsinnis vakið athygli á brýnni nauðsyn þess að framkvæmdum á Vesturlandsvegi sé hraðað umfram þær áætlanir sem birtast í langtímasamgönguáætlun.

Vika er síðan að maður á fertugsaldri lést á Vesturlandsvegi við Esjuberg þegar fólksbíll hans rakst framan á flutningabíl.

 

Mynd með færslu
Halla Ólafsdóttir
Fréttastofa RÚV