Áfrýjunarnefnd staðfestir sekt Norðursiglingar

12.01.2018 - 16:17
Mynd með færslu
 Mynd: Norðursigling  -  RÚV
Áfrýjunarnefnd neytendamála hefur staðfest ákvörðun Neytendastofu þar sem ferðaþjónustufyrirtækinu Norðursiglingu var gert að greiða 500 þúsund króna sekt fyrir að nota hugtakið „Carbon Neutral“. Fyrirtækið notaðist við slagorðið fimm mánuðum eftir að Neytendastofa komst að þeirri niðurstöðu að fyrirtækið gæti ekki staðið undir því.

Norðursigling hélt því fram að sekt Neytendastofu væri fram úr hófi og brotið gegn reglum stjórnsýslulaga um meðalhóf, jafnræði og andmælarétt. Áfrýjunarnefndin bendir á að fyrirtækið hafi haft fimm mánuði til að bregðast við og að ekki verði annað séð en að markaðssetning þess hafi að einhverju leyti brotið gegn ákvörðun Neytendastofu.

Þá segir áfrýjunarnefndin að fyrirtækið hafi verið varað við því að brot gegn ákvörðuninni myndi leiða til sekta. Fyrirtækið hafi haldið áfram ólögmætri háttsemi sinni í fimm mánuði áður en ákvörðun um sektina var tekin. 

„Carbon Neutral“ útleggst á íslensku sem „kolefnishlutlaust“. Í auglýsingum fyrirtækisins kom fram að starfsemin væri kolefnishlutlaus og sendi keppinautur Norðursiglingar, Gentle Giants, kvörtun til Neytendastofu á þeim forsendum að notkun hugtaksins kolefnishlutlaust sé villandi þar sem aðeins einn af bátum Norðursiglingar gangi fyrir rafmagnsmótor en að olía sé notuð sem eldsneytisgjafi á aðra báta.