Ætlar að sprengja sviðið af gleði og húmor

14.02.2018 - 15:16
Aron Hannes flytur lagið „Golddigger“ næsta laugardag í seinni undankeppni Söngvakeppninnar í ár.

Lagið er eftir þá Jóel Ísaksson og Svein Rúnar Sigurðsson með texta eftir Valgeir Magnússon sem betur er þekktur sem Valli Sport. Aron Hannes er keppninni vel kunnugur en hann tók þátt á síðasta ári með laginu Nótt sem hafnaði í þriðja sæti á eftir Svölu og Daða Frey.

Hann segist búa að reynslunni og játar því að tilfinningin sé öðruvísi í þetta skiptið: „Já í rauninni, maður veit hvað maður er að fara í. Maður er öruggari og það er meiri eftirvænting. Maður er spenntur að hitta sama fólkið. “ Hann segist ávallt leggja hart að sér þegar hann fari út í vinnu af þessu tagi og vonar að þjóðin taki vel í lagið: „Við ætlum að sprengja sviðið af gleði og húmor og danskennslu.“

Vill útiloka allan misskilning

Titill lagsins er á ensku, Golddigger. Orðið er niðrandi, vel þekkt í poppkúltúr og oftast notað um konur sem þykja vera að féfletta karlmenn undir rómantísku yfirskini. Aðspurður út í titil lagsins segir Aron Hannes: „Til að útiloka allan misskilning þá kemur mín reynsla hvergi nálægt þessum texta. En það tengja samt margir við það, ég geri það sjálfur. Þekki marga karla sem eiga peninga,“ útskýrir Aron Hannes, og bætir við: „Þetta snýst bara um það að maður sem á pening, sem er ég í rauninni „í sögunni,“ hann er bara orðinn háður þessari konu og nær ekki að losa sig við hana. Og þá koma félagarnir og segja „Hey, hún er golddigger maður, þú verður að fara að rífa þig í gang, skilurðu.““

Árangur í fyrra opnaði dyr

Aðspurður segir hann að velgengnin í Söngvakeppninni á síðasta ári hafi opnað honum dyr. „Sérstaklega samstarfið við Svein Rúnar og Valgeir Magnússon, betur þekktan sem Valla Sport. Við gáfum út tvö lög núna, Sumarnótt í sumar og svo kom Morgunkoss núna í enda október og svo kom þetta lag. Og hugmyndin um að fara í Söngvakeppnina aftur. Og þegar ég heyrði þetta lag þá hugsaði ég: "Jájá, gerum þetta aftur. Þetta er málið." Þetta var akkúrat það sem mig langaði að hallast að, svona Bruno Mars, svona Motown, nútímavæddur fílingur."

Aron Hannes var í viðtali hjá Dagvaktinni á Rás 2. Þar flutti hann ábreiðu af laginu I'm not afraid to move on sem Jostein Hasselgård flutti fyrir Noregs hönd í Eurovisionkeppninni árið 2003. Hlýða má á viðtalið við Aron Hannes og flutninginn í heild sinni í spilaranum hér að ofan.

Aron Hannes - Golddigger
Mynd með færslu
Nína Richter
vefritstjórn
Dagvaktin
Þessi þáttur er í hlaðvarpi