Aðeins lögformleg skilyrði fyrir uppreist æru

17.07.2017 - 14:05
Mynd með færslu
 Mynd: Facebook
Tegund brots eða fyrri sakarferill hefur engin áhrif um mat á hvort veita skuli mönnum uppreist æru. Einungis er gerð krafa um að umsækjandi um uppreist æru uppfylli tiltekin lögformleg skilyrði.

Svona hefur framkvæmdin verið undantekningalaust í að minnsta kosti þrjátíu og fimm ár. Þetta kemur fram í bréfi frá dómsmálaráðuneytinu. Skilyrðin eru að refsing hafi verið tekin út að fullu og góð hegðun frá þeim tíma. Því til staðfestingar er byggt á upplýsingum úr sakaskrá og málaskrá lögreglu. Þá er gerð krafa um umsögn að minnsta kosti tveggja manna til frekari staðfestingar á að hegðun hafi verið góð. Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd ræðir málið í fyrramálið að beiðni Svandísar Svararsdóttir, þingmanns VG. Dómsmálaráðherra hefur sett spurningamerki við hvort uppreist æra eigi heima í lögum.

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, hefur óskað eftir umræðu um málið í allsherjar- og menntamálanefnd í kjölfar þess að æra Robert Downey, áður Róbert Árni Hreiðarsson, var uppreist fyrir skömmu. Ekki hafa fengist upplýsingar um hverjir vottuðu um hegðun hans.

„Okkur finnst það eðlilegt að til séu einhverskonar ferlar til þess að hreinsa æru manna ef að svo mætti að orði komast. En mál Robert Downey hefur sýnt að ferlið í íslensku réttarkerfi er stórgallað. Það gengur ekki upp að veita einstaklingi sem hefur brotið jafnalvarlega af sér uppreist æru ef enginn fæst til að taka ábyrgð á því eða rökstyðja það fyrir almenningi,“ segir Þórhildur Sunna.

Hún telur að ferlið til uppreist æru eigi að vera gagnsærra.

„Þegar forsetinn sjálfur, sem ber lögformlega ábyrgð á uppreist æru í íslensku réttarfari veit ekki almennilega hverjum hann er að veita uppreist æru eða hvers vegna að þá er augljóst að það vantar verulega upp á gagnsæi í þessu ferli og úr því verður að bæta og það er það sem við viljum skoða með þessum fundi.“