Aðaláhyggjurnar voru að komast ekki í flug

03.01.2018 - 08:11
Aðaláhyggjur ferðamannanna sem leituðu skjóls í fjöldahjálparstöðinni í Vík í gær eftir að Suðurlandsvegi var lokað voru þær að komast ekki til Keflavíkur í flug í tæka tíð. Þetta segir Ragnheiður Högnadóttir hjá Rauða krossinum í Vík, sem telur þó að allir ættu að hafa náð til síns heima eftir að opnað var fyrir veginn klukkan 11 í gærkvöld. 250 manns komu í fjöldahjálparstöðina í íþróttahúsinu í gær og um tuttugu ferðamenn gistu þar vegna þess að þeir treystu sér ekki til að keyra í nótt.

Ragnheiður segir að gestir hafi látið vel af vistinni og verið þakklátir þótt ómögulegt sé að búa sig almennilega undir að taka á móti svo miklum mannfjölda. „Við erum náttúrulega ekkert búin til þess. Við erum með búnað og getum með mjög góðu móti tekið á móti svona 50 manns og búið mjög vel að þeim, en með svona fjölda þá er það eina sem við getum veitt húsaskjól og kaffisopi,“ sagði Ragnheiður í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun. Hægt er að hlusta á viðtalið við hana í heild sinni í spilaranum hér að ofan.

Mynd með færslu
Stígur Helgason
Fréttastofa RÚV
Morgunútvarpið
Þessi þáttur er í hlaðvarpi