Að í alla nótt til að koma í veg fyrir tjón

14.10.2017 - 08:37
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV  -  Ágúst Ólafsson
Mikið vatnsveður hefur verið á Norðurlandi í nótt og þó mjög hafi dregið úr rigningu má búast við úrkomu fram til hádegis. Mesta rigningin var á Siglufirði, einkum í gærkvöld og fram eftir nóttu. Ámundi Gunnarsson, slökkviliðsstjóri Fjallabyggðar, segir að flætt hafi inn í kjallara í tveimur eða þremur húsum. Starfsmenn bæjarins og björgunarsveitarmenn hafa frá því gærkvöld og í alla nótt unnið við það að dæla úr brunnum og hefur tekist að mestu að koma í veg fyrir að flætt hafi í hús.

Ámundi segir að óhemju rigning hafi verið í bænum frá því síðdegis í gær. Þá var sjávarstaða há og þess vegna hafi vel á annan tug manna frá bænum og björgunarsveitum verið kallaðir út til að vinna við dælingu. Ámundi hefur trú á að hætta á flóðum sé liðin hjá. 

Teitur Arason, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands, segir að mesta rigningin hafi verið á Siglufirði og Ólafsfirði. Undir morgun hafi rigningin þó varla verið hálfdrættingur á við það sem var í gærkvöld. Mikið vatn hafi þó safnast fyrir í rigningum síðustu daga á Norðurlandi og því er enn aukin hætta á skriðuföllum. Rigningin verður úr sögunni eftir hádegi en áfram verður hvasst á austanverðu landinu, segir Teitur.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV
Mynd með færslu
Kristján Sigurjónsson
Fréttastofa RÚV