Ábyrgð ferðaþjónustufyrirtækja mikil

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Ábyrgð fyrirtækja í ferðaþjónustu er gríðarlega mikil, segir Sindri Ragnarsson, leiðsögumaður og eigandi ferðaþjónustufyrirtækisins Glacier Trips sem staðsett er á Höfn. Öryggisáætlanir verði örugglega endurskoðaðar eftir fund með Almannavörnum. 

Almannavarnir og jarðvísindamenn funduðu með ferðaþjónustufyrirtækjum í Öræfasveit í gær til að fara yfir neyðaráætlun sem í gildi er. Mikil umræða hefur verið um svæðið og hafa komið fyrirspurnir frá viðskiptavinum erlendis
Sindri segir að fólk erlendis hafi frétt af umbrotunum í jöklinum. 

„Og þar af leiðandi fréttaflutningur og annað skiptir auðvitað miklu máli hvernig hann fer fram. Veistu til þess að það hafi verið afbókað? Já ég hef heyrt það frá  kunningja mínum að það var afbókað vegna eldgoss en það var fyrir nokkrum dögum síðan það hefur væntanlega verið þegar mestu umræðurnar voru í gangi.“

Símasamband í Öræfasveit hefur verið stopult en hafin er vinna við endurbætur á kerfinu. Starfsmenn Vodafone fóru í morgun austur í Öræfasveit til að fara yfir varaafl, farsíma - og netbúnað og til að koma fyrir færanlegum vararafstöðvum og farsímasendum. 

Eftir fundinn skildu Almannavarnir eftir spurningalista hjá ferðaþjónustufyrirtækjunum, um þann búnað og ökutæki sem þau hafa til umráða, sem ætlað er að kanna hvort þau gætu tekið þátt í hugsanlegri rýmingu á svæðinu.   
 
Hver er ábyrgð ferðaþjónustufyrirtækjanna sem starfa á svona svæði? Ég held að ábyrgðin sé alveg gríðarlega mikil við berum ábyrgð á öllum okkar kúnnum og mikilvægt ef kæmi upp eitthvað neyðarástand að við getum þá komið þeim á rétta staði o.s.frv.“

Fyrirtæki í ferðaþjónustu fari eftir gæðakerfi Vakans sem er gæðakerfi í ferðaþjónustu. „Og ég hugsa að við munum endurskoða okkar öryggisáætlun þar varðandi þessa rýmingaráætlun og þessar pælingar sem fóru fram áðan.“

Fréttin hefur verið uppfærð

Bergljót Baldursdóttir
Fréttastofa RÚV