50 tonn af jólaskinku til Venesúela

31.12.2017 - 01:55
epa06408478 A group of people protest in front of members of the Bolivarian National Police (PNB) in Caracas, Venezuela, 28 December 2017. The protests over the shortage, the scarcity of food and the lack of domestic gas and water continued today in
Óeirðalögregla í Venesúela hefur haft í nógu að snúast um hátíðarnar. Fólk hefur mótmælt skorti á mat, lyfjum, eldsneyti og fleiri nauðsynjum og svo bættist jólaskinkan við.  Mynd: EPA-EFE  -  EFE
Stjórnvöld í Kólumbíu hafa heimilað útflutning á 50 tonnum af jólaskinku til Venesúela á fostudag og laugardag. Mikill skortur á þessum hefðbundna hátíðarmat hefur leitt til fjölmennra mótmæla í Venesúela síðustu daga. Maduro, forseti Venesúela, hafði lofað því að nóg yrði til af hangikjöti þeirra Venesúelamanna og fólk brást ókvæða við þegar ekkert bólaði á efndum. Samskipti þessara nágrannaríkja hafa verið upp og ofan í gegnum tíðina og með versta móti síðustu misserin.

Í báðum löndum hafa verið settar miklar hömlur á viðskipti við fyrirtæki og stofnanir í hinu landinu. Stjórnvöld í Kólumbíu ákváðu að gera undantekningu á viðskiptabanninu til hátíðabrigða og gáfu út „sérstakt útflutningsleyfi“ fyrir 50 tonn af þessu ómissandi hnossgæti. Fyrstu tveir trukkarnir lögðu af stað til Barinas í vesturhluta Venesúela á föstudagskvöld og fleiri fylgdu í kjölfarið á laugardag.

Madúró heldur því fram að skinkuskorturinn sé afleiðing alþjóðlegs samsæris, sem Portúgalir standi fyrir. Mikill skortur ríkir á flestum nauðsynjum í Venesúela um þessar mundir, og gildir það jafnt um matvæli sem lyf og aðrar lækningavörur. Þá er verðbólga þar í hæstu hæðum og mun fara yfir 2.300 prósent á næsta ári, gangi spár Alþjóða gjaldeyrissjóðsins eftir. 
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV