36 greind með inflúensu á einni viku

13.01.2018 - 18:07
Mynd með færslu
 Mynd: CC0  -  Pixabay
Á síðustu vikum hefur þeim fjölgað sem greinst hafa með inflúensu hér á landi. 36 voru greindir með A eða B-inflúensu í fyrstu viku ársins. 27 voru greindir í síðustu viku desembermánaðar.

Oftast var inflúensan greind hjá fullorðnum og öldruðum en stöku börn hafa einnig greinst. Fjallað er um þetta á vef Embættis landlæknis. Þar segir einnig að þeim hafi fjölgað sem greinast með einkenni sem eru lík inflúensu.

10 ung börn með RS-veiru

Tilfellum RS-veiru hefur fjölgað þó nokkuð á undanförnum vikum. Tuttugu voru greind með veiruna í síðustu viku, þar af voru tíu börn á fyrsta og öðru aldursári. Á vef Embættis landlæknis segir að veiran hafi einnig verið staðfest hjá öðrum aldurshópum, einkum meðal aldraðra, sem ásamt ungabörnum sé þekktur áhættuhópur. Á síðustu fjórum vikum hafa 19 einstaklingar verið greindir með human metapneumóveiru sem getur valdið svipuðum einkennum og RS-veira gerir hjá börnum.

Færri með iðrakveisur 

Dregið hefur úr tilkynningum frá heilsugæslu og bráðamóttökum um niðurgang. Stöku einstaklingar hafa verið greindir með iðrakveisuveirur í viku hverri, bæði nóró- og sapóveiru, auk rótaveiru sem oftast finnst hjá ungum börnum.