24 fallnir í óeirðum í Kenía

12.08.2017 - 22:40
Erlent · Afríka · Kenía · Stjórnmál
epaselect epa06140732 Supporters of the opposition leader Raila Odinga shout slogans from a politician's vehicle as they protest against the killing of an eight-year-old girl, shot by a riot policeman's stray bullet fired, during a protest in
Mótmæli í fátækrahverfi Naíróbí hafa verið hörð og þar hafa flestir fallið fyrir kúlum lögreglu. Eitt fórnarlambanna var þó ekki að mótmæla einu eða neinu, heldur var þar átta ára stúlka á ferð, sem lenti í skotlínunni.  Mynd: EPA
Minnst 24 hafa látið lífið í óeirðum sem brutust út í Naíróbí og víðar eftir að yfirkjörstjórn í Kenía lýsti Uhuru Kenyatta sigurvegara forsetakosninganna, sem þar voru á þriðjudag. Samkvæmt tölum yfirkjörstjórnar fékk Kenyatta 54,27 prósent atkvæða en leiðtogi stjórnarandstöðunnar, Raila Odinga, fékk 44,74 prósent.

Hvort tveggja Afríku- og Evrópusambandið sendu eftirlitsnefndir til að fylgjast með framkvæmd kosninganna og niðurstöður beggja voru að þær hafi farið vel fram. ELOG, frjáls félagasamtök í Kenía sem starfað hafa síðan 2010 og hafa það meginmarkmið að fylgjast með og tryggja frjálsar og sanngjarnar kosningar í landinu, komust að sömu niðurstöðu. Odinga og stuðningsfólk hans gerir lítið með álit þessara aðila og fullyrðir að brögð hafi verið í tafli. 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV