185 farþegar komu frá Cardiff til Akureyrar

12.01.2018 - 15:38
Mynd með færslu
 Mynd: Markaðsstofa Norðurlands
Breska ferðaskrifstofan Super Break hefur hafið reglulegt millilandaflug til Akureyrar. Um 2400 breskir ferðamenn eru væntanlegir á næstu tveimur mánuðum. Ferðamálaráðherra segir þetta stóran áfanga fyrir íslenska ferðaþjónustu. 

185 farþegar frá Cardiff í Wales lentu á Akureyrarflugvelli um hádegi í dag. Blásið var til fögnuðar, flutt ávörp og klippt á borða, enda hefur lengi verið stefnt að reglulegu millilandaflugi. Super Break stendur fyrir 14 flugferðum til Akureyrar í janúar og febrúar, með um 2400 farþega. Við brottför frá Cardiff var sömuleiðis mikill fögnuður, en þangað mætti Aron Einar Gunnarsson, landsliðsfyrirliði Íslands í knattspyrnu, sem spilar með liði Cardiff, og heilsaði upp á ferðamennina. Þá söng velskur kór íslensk lög fyrir ferðamennina. 

Mynd með færslu
 Mynd: Super Break

Viðtökurnar langt fram úr væntingum

Búið er að selja í 95% sætanna og hafa viðtökurnar komið á óvart. „Þegar við fórum að skipuleggja ferðirnar var markmiðið að selja í 75% sætanna. Fljótlega kom í ljós að það myndi takast og þá ákváðum við að fjölga flugferðum frá fleiri breskum flugvöllum,“ segir Chris Hagan, verkefnastjóri hjá Super Break. 

Stefnt að því að heimamenn geti nýtt sér flugið

Ferðamennirnir verða hér yfir helgina, skoða norðurljósin, fara í Mývatnssveit, hvalaskoðun, skíði og fleira. 22 ferðir hafa verið ákveðnar næsta vetur og líkur á að þeim fjölgi í 36. Í dag fóru um 100 Íslendingar með vélinni til baka til Bretlands og segir Hagan, að þó aðalmarkmiðið sé að fjölga ferðamönnum hér, þá sé stefnt að því að heimamenn geti einnig nýtt sér þetta. „Og við höfum skuldbundið okkur til að vinna með ferðaþjónustuaðilum hér á Akureyri að því að þróa ferðir og pakka í boði fyrir heimamenn,“ segir Hagan. 

Stór áfangi fyrir landsbyggðina

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ráðherra ferðamála, segir ánægjulegt hversu ötullega heimamenn hafi unnið að því að koma fluginu á koppinn. „Ég held að þetta sé mjög stór áfangi fyrir íslenska ferðaþjónustu, fyrir þetta svæði og almennt fyrir landsbyggðina og dreifingu,“ segir Þórdís. 

Mynd með færslu
 Mynd: Markaðsstofa Norðurlands

Eykur líkur á áætlunarflugi

Arneiður Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri Markaðsstofu Norðurlands, segir að þessi áfangi brjóti ísinn og auki verulega líkur á að erlend flugfélög hefði áætlunarflug um völlinn.  „Það sem okkur hefur vantað hérna eru sölutölur, sýna að það sé raunverulegur áhugi fyrir áfangastaðnum. Síðan að sýna að völlurinn geti tekið við þessum vélum, það sé hægt að lenda hérna, það eru margir með áhyggjur af því. Nú erum við að sýna fram á það,“ segir Arnheiður.  

Biðu í strætisvagni

Og þó allt hafi gengið vel, var ansi þröngt í flugstöðinni og þurftu farþegar að bíða í strætisvagni á flughlaðinu eftir því að komast inn. „Ég kalla eftir því núna að við förum virkilega að horfa á Akureyrarflugvöll sem alvöru flugvöll fyrir millilandaflug erlendis frá og förum að sinna honum sem slíkum og byggja hann upp,“ segir Arnheiður.