14 kirkjugestir myrtir í Nígeríu

02.01.2018 - 02:23
epa02771849 The site of a bomb blast the day after it devastated Saint Patrick Catholic church in Maiduguri northern Nigeria, 08 May 2011. At least five people were killed after blasts at police stations and a church in the northern Nigerian city of
Kirkjur eru vinsæl skotmörk glæpa- og hryðjuverkahópa í Nígeríu. Þessi kaþólska kapella var skotmark Boko Haram í norðausturhluta landsins á síðasta ári.  Mynd: EPA
Byssumenn myrtu minnst 14 kirkjugesti á leið úr miðnæturmessu í sunnanverðri Nígeríu á nýársnótt. AFP-fréttastofan greinir frá þessu og hefur eftir lögreglu á svæðinu. Árásin var gerð í bænum Omoku, um 90 kílómetra frá hafnarborginni Port Harcourt. Ónafngreindur heimildarmaður AFP úr lögreglunni segir að fjórtán hafi dáið á staðnum og tólf til viðbótar verið flutt á spítala með skotsár. Morðingjarnir komust undan á flótta og er þeirra leitað.

Omoku er í Fljótahéraði Nígeríu, olíuríku héraði þar sem fátækt er engu að síður mikil og nokkur áhrifamikil glæpagengi bítast um áhrifasvæði og völd.  
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV