10 milljóna króna sekt á smálánafyrirtæki

17.07.2017 - 14:35
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Neytendastofa hefur lagt 10 milljóna króna stjórnvaldssekt á fyrirtækið E-content, sem rekur smálánafyrirtækin Kredia, Smálán, 1909, Múla og Hraðpeninga, vegna brota á lögum um neytendalán. Fyrirtækið hefur 14 daga til bregðast við áður en lagðar verða á dagsektir.

Neytendastofa hafði áður tekið ákvörðun um að smálánafyrirtækin brytu lög um neytendalán með háttsemi sinni. Neytendastofa taldi kaupverð rafbóka sem lánveitendurnir selja og neytendur þurfa að kaupa til þess að eiga kost á láni sé í raun kostnaður af láninu. Þannig hafi lánskostnaður farið langt umfram leyfilegt hámark. Jafnframt var gagnrýnt að lántakendum hafi ekki verið veittar fullnægjandi upplýsingar. 

Ákvörðun Neytendastofu var kærð til áfrýjunarnefndar neytendamála sem staðfesti hana í meginatriðum. Hins vegar telur Neytendastofa að fyrirtækið hafi ekki brugðist við ákvörðun stofnunarinnar og því kemur til stjórnvaldssektarinnar sem nemur 10 milljónum króna. 

E-content hefur fjórtán daga til að bregðast við ákvörðun Neytendastofu og gera úrbætur. Verði það ekki gert verður fyrirtækinu gert að greiða dagsekt að fjárhæð 500 þúsund krónur á dag.